Almennt er talið að fjármálaráðherra Svíþjóðar til síðustu sjö ára, Magdalena Andersson, sé líklegust til að verða fyrir valinu, en enn sem komið er hefur þó enginn stigið fram og boðið sig fram til formennsku.
Hinn 54 ára Andersson hefur í sænsku fjölmiðlum verið kölluð „krónprinsessan“ og líta flestir til hennar þegar kemur að því að velja næsta formann. Hún þykir af mörgum hafa passað vel upp á fé sænskra skattborgara síðustu ár og hefur hún lýst sjálfri sér sem „nískasta fjármálaráðherranum“ innan Evrópusambandsins.
Keppti í sundi
Andersson er fædd í Uppsölum og á sínum yngri árum keppti hún mikið í sundi. Hún er hagfræðingur að mennt og á árunum 2007 til 2009 starfaði hún sem ráðgjafi Monu Sahlin, þáverandi formanns Jafnaðarmannaflokksins. Árið 2009 hóf hún störf sem forstöðumaður hjá sænskum skattayfirvöldum þar sem hún var til ársins 2012.
Hún varð svo fjármálaráðherra árið 2014 í fyrstu ríkisstjórn Löfvens, embætti sem hún hefur gegnt æ síðan.
Vegna þeirrar stöðu sem uppi er á sænska þinginu hefur minnihlutastjórn Löfvens, þurft að stýra landinu á fjárlögum sem borgaralegu flokkarnir hafa samþykkt á þingi.

Enn engin kona gegnt embættinu
Svíþjóð er eina landið á Norðurlöndum þar kona hefur enn ekki gegnt embætti forsætisráðherra. Einungis ein kona hefur gegnt formennsku í Jafnaðarmannaflokknum – Mona Sahlin 2007 til 2011 – en á þeim árum var flokkurinn í stjórnarandstöðu.
Aðrir sem hafa verið nefndir til sögunnar sem mögulegir arftakar Löfvens í stóli formanns eru innanríkisráðherrann Mikael Damberg, orkumálaráðherrann Anders Ygeman og viðskiptaráðherrann Ardelan Shekarabi.
Ekki sjálfsagt að nýr formaður verði forsætisráðherra
Sá sem verður arftaki Löfvens sem formaður Jafnaðarmannaflokksins verður þó ekki sjálfkrafa forsætisráðherra. Þegar Löfven mun formlega biðjast lausnar verður hann starfandi forsætisráðherra á meðan forseti sænska þingsins ræðir við flokksformenn og veitir þeim sem þykir líklegastur til að geta myndað stjórn umboð til stjórnarmyndunar.
Næsti formaður Jafnaðarmannaflokksins verður þó vissulega í kjörstöðu til að mynda nýja stjórn, en sænska þingið þarf að greiða atkvæði um tillögu þingforsetans um næsta forsætisráðherra.
Mjög mjótt er á munum milli fylkinga á sænska þinginu, en núverandi minnihlutastjórn Jafnaðarmanna og Græningja er háð stuðningi bæði Vinstriflokksins og Miðflokksins.
Kosningar fara næst fram í Svíþjóð haustið 2022.