Nöfnum á rúmlega 500 biðstöðvum Strætó verður breytt í næsta mánuði. Leitast hefur verið við að nýju nöfnin séu eins lýsandi og hægt er fyrir staðsetningu viðkomandi stöðva og hægt er.
Í tilkynningu frá Strætó segir að í margar biðstöðvar beri nokkuð löng og flókin nöfn sem komi niður á „læsileika upplýsinga á leiðakortum, skiltum eða á skjánum inni í vögnunum."
Þá geti of löng eða flókin nöfn geta einnig gert viðskiptavinum erfiðara fyrir að fóta sig innan leiðakerfisins.
Sem dæmi um breytingar má nefna að biðstöðin Sæbraut/Vitastígur fær nafnið Sólfarið, biðstöðin Nauthólsvegur/Natura fær nafnið Öskjuhlíð en lista yfir allar breytingarnar má nálgast í meðfylgjandi skjali hér að neðan.
Nýju nöfn biðstöðvanna voru unnin samkvæmt eftirfarandi leiðaljósum:
- Leitast skal við að hafa nöfnin eins lýsandi og hægt er fyrir staðsetningu stöðvarinnar. Einnig skal passa upp á að nöfn biðstöðvarinnar „eldist vel“.
Dæmi um hvernig velja á nafn á biðstöð:
- Þekkt kennileiti - sem eru uppi í dag eða hluti af sögulegri arfleifð.
- Opinberar stofnanir (íþróttafélög, söfn, kirkjur, skólar o.fl.)
- Götuheiti
- Nöfn á biðstöðvum skulu ekki vera of löng. Forðast skal notkun á skástrikum til þess að gera nöfn biðstöðvanna tvískipt.
- Leitast skal við að hafa nöfn biðstöðvanna á íslensku.
- Leitast skal við að nefna biðstöðvar ekki eftir einkafyrirtækjum.
- Meginreglan er sú að biðstöðvar bera sama nafn sitthvoru megin við götuna.
Reiknað er með að breytingarnar taki gildi 15. ágúst næstkomandi en íbúar sem vilja koma á framfæri ábendingum að breyttum nöfnum geta sent skilabod á bidstodvar@straeto.is