Framvegis verður fólk að sýna fram á ónæmisvottorð eða neikvætt Covid-19 próf til að komast inn á flesta fjölmenna staði og viðburði.
Hið svonefnda Delta-afbrigði veirunnar hefur dreift sér hratt í Frakklandi.
Opnuðu skemmtistaði
Aðgerðirnar kynnti Macron aðeins þremur dögum eftir að skemmtistöðum var leyft að opna aftur í Frakklandi. Margir túlkuðu þá opnun sem mikil tímamót í baráttunni við veiruna og töldu að tímum takmarkana og lokana væri nú lokið í landinu.
Macron ávarpaði þjóðina síðan í sjónvarpinu þar sem hann brýndi mikilvægi bólusetninga fyrir Frökkum. Þar kvaðst hann ætla að innleiða nýja löggjöf sem skyldaði alla heilbrigðisstarfsmenn til að vera búnir að láta bólusetja sig fyrir 15. september næstkomandi.
Markmiðið nú væri að innleiða takmarkanir sem næðu aðeins til óbólusettra en ekki til allra.
Frá og með 21. júlí verða því allir sem vilja komast inn á menningarviðburði eða í skemmtigarða að sýna fram á vottorð og í ágúst munu fleiri staðir krefjast þess sama af gestum sínum, til dæmis veitingastaðir, verslunarmiðstöðvar, spítalar, öldrunarheimili og almenningssamgöngur sem fara langar leiðir.
Einnig hyggjast frönsk stjórnvöld fara að rukka fyrir PCR-próf en þau hafa hingað til verið gjaldfrjáls.