Leikur Essen og Lemgo var stál í stál frá upphafi til enda. Staðan 18-18 í hálfleik en Lemgo vann síðari hálfleikinn með tveimur mörkum og leikinn þar með 39-37. Bjarki Már Elísson var í sérflokki í leik kvöldsins en hann gerði sér lítið fyrir og skoraði 11 mörk.
Lemgo er í 9. sæti með 31 stig að loknum 28 leikjum.
Eftir nokkuð jafnan fyrri hálfleik í leik Dessauer og Gummersbach leiddu gestirnir með þremur mörkum í hálfleik, staðan þá 10-13.
Það sem Guðjón sagði í hálfleik hefur heldur betur virkað á Elliða Snæ Vignisson og aðra leikmenn liðsins en Gummersbach keyrði yfir heimamenn og vann á endanum 14 marka sigur, lokatölur 20-34.
Gummersbach er sem stendur á toppi B-deildarinnar með 47 stig að loknum 30 leikjum en Hamburg er aðeins stigi á eftir með leik til góða.