IA og flokkurinn Naleraq mynduðu ríkisstjórn með nauman meirihluta á þingi eða sextán þingmenn af 31. Flokkurinn Atassut mun þó styðja ríkisstjórn landsins. Áður höfðu bæði Siumut og Demókratar gengið frá samningaborðinu.
Sjá einnig: Siumut gengur frá samningsborðinu
Forsvarsmenn Atassut vildu ekki vera beinir aðilar að ríkisstjórninni því þeir vilja ekki sjálfstæði frá Danmörku, eins og hinir flokkarnir tveir.
Við kynningu ríkisstjórnarinnar í gær sagði Egede að samstarfsflokkana hafa verið sameinaða í stjórnarandstöðu undanfarin ár og forsvarsmenn þeirra þekki hvorn annan vel. Lítið sé um deilumál þeirra á milli og markmiðið sé að skapa stöðugleika til næstu fjögurra ára.
Haft er eftir honum á vef Sermitsiaq að forsvarsmenn flokkanna hafi heitið því að leggja þau deilumál sem séu til staðar til hliðar og einbeita sér að því að stjórna saman næstu fjögur ár.
Í frétt DR segir að Egede hafi einnig sagst ætla að leggja áherslu á að draga úr ójöfnuði og að stjórnmálasáttmáli ríkisstjórnarinnar segi til um að ekkert verði af námuvinnslu sjaldgæfra málma í Hvannarfjalli, nærri bænum Narsaq.
Sjá einnig: Ljóst að ekkert verður úr námuvinnslunni á Suður-Grænlandi
Stjórnarflokkarnir vilja einnig útrýma heimilisleysi á Grænlandi fyrir árið 2035 og gera breytingar á skattkerfi landsins. Þá vilja þeir betrumbæta heilbrigðiskerfi Grænlands og leggja mikla áherslu á geðheilsu og meðferð gegn krabbameini.