Handbolti

Komið á­fram án þess að spila

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Alexander Petersson og félagar í Flensburg eru komnir áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þan þess að spila leik í 16-liða úrslitum.
Alexander Petersson og félagar í Flensburg eru komnir áfram í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu þan þess að spila leik í 16-liða úrslitum. Flensburg

Flensburg, topplið þýsku úrvalsdeildarinnar í handbolta, er komið í 8-liða úrslit Meistaradeildar Evrópu, án þess að spila leik. Íslenski landsliðsmaðurinn Alexander Petersson er meðal leikmanna liðsins.

Flensburg dróst króatíska liðinu Zagreb í 16-liða úrslitum. Fyrri leikur liðanna átti að fara fram í síðustu viku en var upphaflega frestað sökum þess að fjöldi leikmanna króatíska liðsins var smitaður af Covid-19.

Í kjölfarið voru báðir leikirnir færðir til Þýskalands og áttu að fara fram á morgun, miðvikudag, og svo fimmtudag. Nú hefur báðum leikjunum hins vegar verið aflýst þar sem Zagreb nær einfaldlega ekki í lið vegna kórónuveirusmita í herbúðum liðsins.

Handknattleikssamband Evrópu hefur þar með dæmt Flensburg sigur í báðum leikjunum og liðið því komið í 8-liða úrslit án þess að spila í 16-liða úrslitum. Alexander og félagar munu mæta Porto frá Portúgal eða Álaborg frá Danmörku í 8-liða úrslitum. Arnór Atlason, fyrrum samherji Alexanders hjá íslenska landsliðinu, er aðstoðarþjálfari danska liðsins.

Flensburg er annað liðið sem tryggir sér sæti í 8-liða úrslitum. Barcelona með Aron Pálmarsson innanborðs komst áfram í gær eftir að hafa lagt Elverum frá Noregi auðveldlega að velli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×