Weinstein segist ákveðinn í því að hreinsa mannorð sitt og segja lögmenn hans að dómarinn í málinu hafi gert alvarleg mistök sem leitt hafi til þess að Weinstein hafi ekki fengið sanngjörn réttarhöld.
Rúmt ár er síðan Weinstein var sakfelldur fyrir fjölda kynferðisbrota og dæmdur í 23 ára fangelsi. Weinstein var ákærður fyrir kynferðisbrot gegn tveimur konum en sex konur sem segjast hafa verið fórnarlömb hans báru vitni í réttarhöldunum yfir honum.
Tugir kvenna hafa stigið fram undanfarin ár og sakað Weinstein um kynferðisofbeldi eða áreitni. Lang flestar þeirra starfa eða störfuðu í kvikmyndageiranum í Hollywood og hefur fjöldi kvenna haldið því fram að erfitt hafi verið að komast áfram í Hollywood án þess að verða á vegi Weinstein. Hann hafi iðulega notfært sér valdastöðu sína til þess að brjóta á konum.
Weinstein, sem lengi var einn valdamesti maður Hollywood, hefur ítrekað haldið fram sakleysi sínu. Lögmenn hans sögðu í réttarhöldunum í fyrra að kynferðislegt samband Weinstein og kvennanna sem hafa sakað hann um kynferðisbrot hafi verið með þeirra samþykki.