Shanghæ höfðaði málið og krafðist ómerkingar á ummælum í fjórum liðum sem birt voru á vef Ríkisútvarpsins og einum ummælum sem Sunna lét falla í beinni útsendingu í kvöldfréttum þann 30. ágúst 2017. Stefnan var gegn Sunnu aðallega, Magnúsi Geir til vara og Ríkisútvarpinu til réttargæslu.
Ummælin lutu að ætluðu vinnumansali á veitingastaðnum sem var þá í eigu Rosita YuFan Zhang. Grunur um umrætt brot og nánari atvik reyndust haldlaus að því er segir í niðurstöðu Landsréttar. Þar kemur einnig fram að ekki færi á milli mála að ummælin hefðu falið í sér aðdróttanir um alvarleg brot og siðferðilega ámælisverða háttsemi.
Hins vegar taldi Landsréttur að ekki yrði hjá því litið að fyrir lá grunur, byggður á ábendingu sem stéttarfélagið Iðja hugðist kanna nánar. Sem raunin varð. Sunna hefði því heimildir sem hún hefði mátt telja traustar.
Landsréttur taldi að hvorki yrði gerð sú krafa til Sunnu að hún kannaði sérstaklega hvort umrædd ábending væri rétt eða röng né að henni hefði verið skylt að gefa Rositu kost á að tjá sig um efni fréttanna fyrir flutning þeirra.
Þá yrði að líta til þess að í krafti hins rúma tjáningarfrelsis sem fjölmiðlar njóti hafi Sunna haft svigrúm til að ákveða nánari framsetningu fréttanna svo framarlega sem ekki yrði farið með rangt mál. Hún hefði því ekki með ummælum sínum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsisins samkvæmt stjórnarskrá og manndréttindasáttamála Evrópu.
Málskostnaður í héraði og fyrir Landsrétti var látinn falla niður í ljósi vafaatriða málsins, eins og segir í dómi Landsréttar.