Skyggni er lítið sem ekkert í borginni og rauðgulur blær á öllum myndum þar sem geislar sólarinnar komast ekki í gegnum huluna.
Loftgæði eru nú sögð afar hættuleg en loftgæði mældust þar í morgun 999 á hinum svokallaða AQI skala. Á sama tíma sýndu mælar í Tokyo 52, Í Sidney 17 og 26 í New York, til samanburðar.
Svifryksmengunin í borginni mældist 600 á sama tíma, en Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin segir að loftgæði á þeim skala megi helst ekki fara mikið upp fyrir 25.
Sandstormurinn þekur tólf héröð Kína gulu ryki og sandi, samkvæmt frétt South China Morning Post, og hefur veðurstofa landsins sett á gula viðvörun, sem er sú næst hæsta af fjórum.
Borgin verður reglulega fyrir sandstormum frá Góbí eyðimörkinni í mars og apríl en veðurstofa Kína segir þennan þann versta sem sést hafi í áratug.
Reuters segir Peking verða reglulega fyrir sandstormum vegna nálægðar höfuðborgarinnar við Góbíeyðimörkina og sömuleiðis vegna skógareyðingar í norðvesturhluta Kína.

Ráðamenn þar hafa reynt að gróðursetja nýja skóga og bæta ástand svæðisins og segja það hafa hjálpað. Umhverfisráðuneyti Kína sagði í fyrra að stormarnir kæmu seinna á árinu og hættu fyrr, miðað við fyrir áratug síðan.
Þó sandstormarnir hafi skánað hefur mengun verið mikið á svæðinu.
Í Peking lýsti einn íbúi ástandinu við heimsendi, í samtali við blaðamann Reuters fréttaveitunnar. Skólar felldu niður alla viðburði utandyra og fólki með undirliggjandi heilsukvilla var ráðlagt að halda sig innandyra.