Maðurinn, Federico G. Klein, starfaði þá hjá utanríkisráðuneyti Bandaríkjanna, þar sem hann var skipaður í embætti af Trumps samkvæmt New York Times, en hafði áður starfað við framboð forsetans fyrrverandi.
Hann er fyrsti meðlimur ríkisstjórnar Trumps sem er handtekinn vegna árásarinnar.
Hann er sakaður í dómsskjölum um að hafa veist af lögregluþjónum með ofbeldi og hótunum. Þó mun hann hafa tekið óeirðaskjöld af lögregluþjóni og notað hann til að berja aðra lögregluþjóna og halda hurð inn í þinghúsið opinni.

Klein, sem er fyrrverandi landgönguliði, sést á myndböndum sem tekin voru í árásinni vera með rauða derhúfu á höfði sínu, sem á stóð „Make America Great Again“. Þar reyndi hann að brjóta sér leið í gegnum tálma lögreglunnar og kallaði hann eftir aðstoð fleiri sem sóttu mótmælin við þinghúsið þann dag.
Rúmlega 300 hafa verið ákærðir við rannsókn yfirvalda á árásinni á þinghúsið. Þá ruddu stuðningsmenn Trumps sér leið inn í húsið með því markmiði að stöðva formlega staðfestingu niðurstaða forsetakosninganna í nóvember.
Trump tapaði kosningunni en hefur haldið því fram að umfangsmikið svindl hafi kostað hann sigur. Hann og bandamenn hans hafa ekki getað fært sannanir fyrir því og embættismenn, sérfræðingar og aðrir, þar á meðal dómsmálaráðherra Trumps, segja ásakanirnar innihaldslausar.
Margir þeirra sem hafa verið ákærðir vegna árásarinnar segjast hafa tekið þátt í henni vegna Trumps.