„Hinn klóki þjálfari Gróttu, Arnar Daði Arnarsson, er í þessu af lífi og sál. Hann er maður tilfinninga og var í smá tilfinningalegu uppnámi eftir þennan leik,“ sagði Henry Birgir áðru en viðtalið var spilað. Viðtalið má finna í spilaranum neðst í fréttinni.
„Þetta var virkilega gaman að sjá, maður tilfinninga og er ekkert að fela. Einar Andri, það má alveg hrósa þessum unga þjálfara,“ sagði Henry eftir að viðtalið var sent og gaf boltann á Einar Andra Einarsson, sérfræðing þáttarins.
„Heldur betur. Það sem er gaman fyrir hann er að hann er með liðið rosalega með sér. Hann er með leikmenn rosalega með sér. Þeir gera allt sem hann biður um. Það er frábær tilfinning sem þjálfari þegar þú finnur að það er alvega sama hvað þú segir, það er bara já!“ sagði Einar Andri um Arnar Daða og Gróttu liðið.
„Þeir trúa líka svo mikið á kerfið. Maður tekur eftir hvað þeir eru agaðir. Þeir fylgja planinu algjörlega, hvort sem það er varnarlega eða sjö á sex. Mér finnst ótrúlega flott hjá honum en þetta er greinilega mikill tilfinninga rússíbani þessi frumraun hans í Olís deildinni. Munið ekki; það var allt hræðilegt, vont, slæmt og ömurlegt. Mér finnst bara kúl að hann þori að sýna það, hann er búinn að heilla mig,“ bætti Bjarni Fritzson við að lokum.

Seinni bylgjan er uppgjörsþáttur Stöðvar 2 Sports um Olísdeildir karla og kvenna í handbolta og er á dagskrá öll mánudagskvöld. Upptökur af þættinum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Olísdeildin er hluti af Stöð 2 Sport Ísland.