Lendingin er erfiðasti áfangi ferðarinnar. Jeppinn þarf að hægja allsvakalega á sér, en þegar hann fer sem hraðast fer hann um tuttugu þúsund kílómetra á klukkustund. Á þeim hraða gæti maður keyrt frá Reykjavík til Akureyrar á rúmri mínútu.
Þrautseigja, eða Perserverance á ensku, á að komast inn í lofthjúp rauðu plánetunnar klukkan 20.48. Sjö mínútum síðar er áætluð lending í Jezero-gígnum.
Hvað finnur jeppinn?
Það sem er einna áhugaverðast við lendinguna er annars vegar hversu miklum búnaði jeppinn er útbúinn og hins vegar það hvar hann lendir. Þetta er þróaðasta tækið sem NASA hefur sent á Mars.
Jeppinn er útbúinn fjölda myndavéla, borvéla og hljóðnema. Þessi tæki munu öll nýtast vel við að skila upplýsingum aftur heim til jarðar.
Og það er nóg af áhugaverðum upplýsingum sem gætu fundist í Jezero-gígnum. Gervihnattarmyndir benda til þess að þar hafi áður verið stærðarinnar stöðuvatn. Eins og blaðamaður breska ríkisútvarpsins orðar það þá getur það vel verið að þar sem vatn var í miklu magni hafi líf verið líka.
Þrautseigja mun því skoða jarðveginn í von um að finna ummerki um fornar örverur.
Erfitt verkefni
Breska ríkisútvarpið hafði eftir Matt Wallace, einum af stjórnendum verkefnisins, að lendingar á Mars séu eitt það allra erfiðasta sem geimvísindamenn fengist við. „Næstum helmingur allra lendinga á Mars hefur mistekist. Þannig það verður ansi strembið að komast niður á plánetuna á öruggan hátt.“
NASA hefur náð átta sinnum að lenda á rauðu plánetunni.