Peningastefnunefnd Seðlabankans tilkynnti í dag að meginvextir bankans verði óbreyttir í 0,75 prósentjum. Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri segir efnahagshorfur hafi versnað frá spá bankans í nóvember sem komi meðal annars niður verðmæti útflutnings sjávarafurða. En þær eru önnur meginstoð gjaldeyristekna þjóðarinnar á eftir ferðaþjónustunni sem er hrunin.
„Það sem er að gerast úti, í okkar helstu viðskiptalöndum, er farsóttin hugsanlega að sækja í sig veðrirð. Þar eru lokanir sem til dæmis veldur vandræðum í sjávarútvegi. Að fólk sé ekki lengur að fara út að borða, bara sem dæmi. Þó við séum eyja erum við háð erlendum mörkuðum. Þannig að það eru aðeins veri horfur og virðist ætla að taka lengri tíma að bólusetja heimsbyggðina,“ segir Ásgeir.

Nýleg erlend lántaka ríkissjóðs upp á 750 milljónir evra hafi jákvæð áhrif á stöðu efnahagsmála hér og sé ígildi peningaprentunar.
„Seðlabankinn er viðskiptabanki ríkissjóðs. Við tökum þennan erlenda gjaldeyri sem kemur og afhendum ríkinu krónur. Ef þær eru settar inn í kerfið kemur það út með sama hætti og þegar verið er að prenta peninga,“ segir seðlabankastjóri. Það styðji við jafnvægi í efnahagslífinu.
Þótt verðbólga mælist nú 4,3 prósent og hafi ekki verið hærri og meira yfir efri viðmiðunarmörkum Seðlabankans frá árinu 2013, telji bankinn að verðbólgan lækki þegar líður á árið meðal annars vegna mikils atvinnuleysis.
„Þannig að við sjáum ekki fyrir að þessi verðbólga haldi áfram. Hún verði eitthvað fóðruð áfram og hún gangi hratt niður,“ segir Ásgeir. Aukið atvinnuleysi sé áhyggjuefni en sem betur fer sé farið að bera á því að fyrirtæki hyggist byrja að ráða til sín fólk á nýjan leik.