16. júní 2016 mætti íslenska karlalandsliðið í handbolta með þriggja marka forskot í farteskinu fyrir seinni leik sinn á móti Portúgal í umspili um sæti á HM 2017.
Íslenska liðið vann fyrri leikinn 26-23 í Laugardalshöllinni fjórum dögum fyrr og mátti því tapa með tveggja marka mun.
Íslenska liðið fagnaði því í leikslok þrátt fyrir 20-21 tap í þessum leik á móti Portúgal en þetta stóð samt tæpt því Portúgalar voru þremur mörkum yfir í hálfleik, 10-7.
Portúgalska liðið komst fjórum mörkum yfir í byrjun seinni hálfleiks og var síðan aftur komið þremur mörkum yfir, 20-17, þegar fimm mínútur voru eftir. Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson og Kári Kristján Kristjánsson skoruðu allir mikilvægt mark á lokakafla leiksins og það dugði ekki Portúgal að skora lokamark leiksins.
Það eru bara fjögur og hálft ár síðan þessi leikur fór fram en gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenska liðinu á þessum tíma.
Eftir forföll Arons Pálmarssonar og Björgvins Páls Gústavssonar eru bara þrír leikmenn eftir í liðinu af þeim sem fögnuðu sæti á HM þrátt fyrir tap í Portúgal daginn fyrir Þjóðhátíðardaginn árið 2016.
Leikmennirnir eru hornamaðurinn Arnór Þór Gunnarsson, línumaðurinn Kári Kristján Kristjánsson og vinstri skyttan Ólafur Guðmundsson. Hinir þrettán leikmennirnir úr hópnum frá 2016 verða ekki með í kvöld.
Rúnar Kárason var markahæstur í þessum leik í Portúgal í júní 2017 með fjögur mörk en þeir Aron Pálmarsson, Arnór Þór Gunnarsson og Arnór Atlason skoruðu allir þrjú mörk.