Verði Rússar beittir viðskiptaþvingunum vegna eitrunar stjórnarandstæðingsins Alexeis Navalní, munu þeir svara fyrir sig. Þetta sagði Sergei Lavrov, utanríkisráðherra Rússlands, í morgun. Tilefni ummæla hans er að forsvarsmenn Evrópusambandsins hafa ákveðið að styðja áætlun frá Frakklandi og Þýskalandi um að beita Rússa viðskiptaþvingunum vegna eitrunar rússneska stjórnarandstæðingsins.
Sex aðilar frá Rússlandi munu verða beittir þvingunum. Þær þvinganir eru sagðar felast í því að eignir þeirra í Evrópu verða frystar og þeim verður meinað að ferðast til aðildarríkja ESB næsta árið. Samkvæmt frétt DW stenur til að ákveða nákvæmari hliðar þvingananna á næstu dögum.
Tillögur Frakka og Þjóðverja snúa að aðilum sem sagðir bera ábyrgð á eitrun Navalnís, sem er brot á alþjóðalögum þar sem Novichok er skilgreint sem gereyðingarvopn. Gripið var til sambærilegra aðgerða í kjölfar eitrunar Sergeis Skripal og dóttur hans.
Sjá einnig: Evrópusambandið hyggst beita Rússland þvingunum
Navalní veiktist hastarlega í flugvél í Rússlandi 20. ágúst. Hann féll í dá og grunaði aðstandendur hans strax að eitrað hefði verið fyrir honum. Nokkrum dögum síðar var Navalní fluttur á sjúkrahús í Berlín. Sérfræðingar í Þýskalandi segja að honum hafi verið byrlað novichok, taugeitur sem var þróað í Sovétríkjunum.
Vísindamenn í Svíþjóð og Frakklandi komust að sömu niðurstöðu sem vísindamenn Efnavopnastofnunarinnar hafa einnig staðfest.
Navalní hefur áður sagst sannfærður um að Vladímír Pútín, forseti Rússlands, hafi staðið að baki því að eitrað var fyrir honum.
Ríkisstjórn Pútíns hafnar þó alfarið þessum ásökunum og hafa jafnvel lagt til að Navalní hafi eitrað fyrir sér sjálfur með því markmiði að fá athygli.