Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn hjá almannavörnum hvetur höfuðborgarbúa til að sýna skynsemi og ferðast ekki út fyrir höfuðborgarsvæðið að óþörfu. Borið hefur á því að íbúar í nágrannasveitarfélögum hafi áhyggjur af því að höfuðborgarbúar sæki sér þjónustu til þeirra eftir að hertar kórónuveiruaðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Víðir sagði í þættinum Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að hlutfall þeirra sem greinst hefðu með kórónuveiruna í sóttkví síðasta sólarhringinn væri lægra en æskilegt væri. Ekki sæi enn fyrir endann á þriðju bylgju faraldursins sem nú gengur yfir.
„Við erum í brekku og við verðum það. Og við skulum alveg undirbúa okkur undir það að þetta séu tölurnar sem við sjáum næstu daga. Það verður kannski um miðja næstu viku sem við getum búist við að sjá einhverja verulega breytingu,“ sagði Víðir.
Borið hefur á því að íbúar á landsbyggðinni hafi áhyggjur af því að höfuðborgarbúar sæki sér þjónustu, fari til dæmis í sund eða klippingu, í nágrannasveitarfélögum eftir að hertar aðgerðir tóku gildi á höfuðborgarsvæðinu í gær.
Þannig hefur íþróttamiðstöðinni í Vogum verið lokað fyrir almenningi vegna nálægðar við höfuðborgarsvæðið. Hárstofan Anna á Selfossi hefur jafnframt tilkynnt að hún taki ekki við viðskiptavinum af höfuðborgarsvæðinu á meðan aðgerðirnar eru í gildi.
„Ég skil ekki alveg að menn séu ekki að fara eftir þessu og sjá ekki hvernig liggur í þessu,“ sagði Víðir, inntur eftir því hvort sóttvarnayfirvöld hefðu áhyggjur af mögulegum ferðalögum höfuðborgarbúa út á land í téðum erindagjörðum.
„Aftur á móti hefur maður áhyggjur af þeim sem nota sundið í sína endurhæfingu og slíkt. Það eru hópar sem fara verr út úr þessu en þeir sem fara bara í sundið til að slaka á. Og af þeim höfum við talsverðar áhyggjur.“
Ferðalög höfuðborgarbúa út á land eru ekki bönnuð samkvæmt reglugerð heilbrigðisráðherra sem tók gildi í gær. Hins vegar er mælst til þess að þeir haldi sig heima. Víðir áréttaði þetta í Reykjavík síðdegis.
„Við hvetjum fólk til að sýna skynsemi. Það hefur sýnt sig heldur betur í þessum faraldri að þú telur þig ekki vera með Covid og ert bara hress og kátur. Svo gerirðu eitthvað og daginn eftir ertu slappur, búinn að smita fullt af fólki eða setja það að minnsta kosti í hættu. Ég held að við ættum að vera skynsöm og halda okkur til hlés þangað til þessi bylgja gengur yfir.“