Erlent

Evrópuþingið samþykkti metnaðarfyllri loftslagsmarkmið

Kjartan Kjartansson skrifar
Frá Evrópuþinginu í Brussel. Þingið kemur saman þar og í Strasbourg í Frakklandi.
Frá Evrópuþinginu í Brussel. Þingið kemur saman þar og í Strasbourg í Frakklandi. Vísir/EPA

Markmið Evrópusambandsins verður að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda um 60% árið 2030 borið saman við árið 1990 og losunarmarkmið verða lagalega bindnandi samkvæmt frumvarpi sem var samþykkt á Evrópuþinginu í gær. Frumvarpið sem var samþykkt gengur lengra en framkvæmdastjórn sambandsins gerði tillögu um.

Framkvæmdastjórnin lagði til 55% samdrátt en það segja sérfræðingar lágmarksamdrátt ætli sambandið sér að ná markmiði sínu um kolefnishlutleysi fyrir árið 2050. Núverandi markmiðið er 40% samdráttur en Ísland tekur þátt í því markmiði.

Frumvarpið með metnaðarfyllra markmiðinu var samþykkt með meirihluta 26 þingmanna.

Ólíklegt er talið að 60% markmiðið eigi eftir að fá stuðning aðildarríkjanna. Um helmingur þeirra styður markmið um að minnsta kosti 55% samdrátt. Endanlegt losunarmarkmið ESB þarfnast einróma samþykkis allra aðildarríkjanna 27.

Samþykkt Evrópuþingsins er þó talið gera aðildarríkjunum erfiðara fyrir að útvatna markmiðið í viðræðum sem nú standa fyrir dyrum, að sögn Reuters-fréttastofunnar.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×