Allt að 250 hermenn taka þátt í loftrýmisgæslu Atlantshafsbandalagsins við Ísland sem hefst á næstu dögum. Að þessu sinni er von á flugsveit bandaríska flughersins sem mun annast loftrýmisgæsluna en gerðar strangari ráðstafanir í tengslum við komu sveitarinnar en gilda um aðra ferðamenn í ljósi kórónuveirufaraldursins.
Auk liðsmanna bandaríska flughersins tekur starfsfólk frá stjórnstöð NATO í Uedem í Þýskalandi þátt í verkefninu og fulltrúar frá eistneska flughernum. Flugsveitin kemur til landsins frá Bretlandi með allt að fjórtán F15 orrustuþotur að því er segir í tilkynningu frá Landhelgisgæslunni.
Gert er ráð fyrir aðflugsæfingum á varaflugvöllunum á Akureyri og á Egilsstöðum dagana 9. til 16. október ef veður leyfir.

„Framkvæmd verkefnisins verður með sama hætti og áður auk þess sem hún verður í samræmi við loftrýmisgæsluáætlun NATO fyrir Ísland,“ segir í tilkynningunni en fyrstu liðsmenn sveitarinnar komu til landsins í síðustu viku.
„Strangari ráðstafanir eru gerðar vegna komu sveitarinnar en almenn gildir um ferðamenn sem koma til landsins því auk landamæraskimana fara allir í tveggja vikna vinnusóttkví (B-sóttkví) að lokinni fyrstu skimun,“ segir í tilkynningunni.
Flugsveitin mun hafa aðsetur á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli og gert er ráð fyrir að verkefninu ljúki fyrir lok þessa mánaðar. Landhelgisgæsla Íslands annast framkvæmd verkefnisins í samvinnu við Isavia.