Frakkar eru nú með í undirbúningi að herða mjög á sóttvarnarreglum sínum í ljósi þess að kórónuveirusmitum hefur farið mjög fjölgandi upp á síðkastið.
Tíu þúsund ný smit voru greind í landinu í gær, sem er met frá upphafi faraldursins og ríkistjórnin og sóttvarnalæknar funda nú um næstu skref.
Yfirmaður sóttvarnamála í Frakklandi, Jean-Francois Delfraissy, varar fólk við að aðgerðirnar gætu orðið mjög viðamiklar og hamlandi.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti segir að fundurinn í dag muni gefa almenningi góða mynd af því sem sé að vænta á komandi dögum.
Rúmlega 30 þúsund manns hafa dáið úr Covid-19 í Frakklandi síðan faraldurinn hófst og eru Frakkar nú í sjöunda sæti þegar kemur að dauðsföllum af völdum veirunnar.