Lára V. Júlíusdóttir, lögmaður hjónanna Sigríðar Eyrúnar Friðriksdóttur og Karls Olgeirssonar, sem fá milljónir í bætur í ríkinu vegna alvarlegra mistaka sem gerð voru á fæðingardeild Landspítalans sem leiddu til þess að nýfæddur sonur þeirra lést, segir upphæð bótanna byggða á tíu ára gömlu dómafordæmi Hæstaréttar í sambærilegu máli.
Upphæðirnar í því máli hafi verið teknar og svo framreiknaðar á verðlag dagsins í dag. Hjónin fá fimm milljónir króna í miskabætur og 1,8 milljónir króna í málskostnað.
„En í svona máli þá bæta peningar aldrei neitt. Það er bara þannig. Þá er þetta spurningin hvað maður þjarkar mikið í einhverjum 500 þúsund köllum,“ segir Lára.
Lára segir bótakröfuna í málinu hafa verið mun hærri en vill ekki fara út í það hversu há hún var. Þar hafi þó einnig verið farið fram á skaðabætur.
„En það er segin saga að það er þekkt hér á Íslandi að miskabætur, það er bætur fyrir ófjárhagslegt tjón, þær eru mjög lágar í samanburði við það sem gerist annars staðar,“ segir Lára í samtali við Vísi. Skaðabætur séu síðan bætur fyrir fjárhagslegt og þá verði að sýna fram á fjárhagslegt tjón.
Málið enn á borði lögreglu
Nói Hrafn, sonur Karls og Sigríðar, fæddist í byrjun janúar 2015 en lést fimm dögum síðar vegna heilaskaða sem hann hlaut við fæðingu vegna mistaka starfsfólks Landspítalans.
Það hefur því tekið mörg ár að fá niðurstöðu í þann þátt málsins sem snýr að bótum til foreldranna en málið er enn á borði lögreglunnar.
Lára segir að það hversu langan tíma málið hefur tekið megi rekja til þess hversu lengi lögreglan hefur haft það til rannsóknar.
Ríkislögmaður hafði óskað eftir því að beðið yrði með að stefna ríkinu í málinu þar til lögreglan hefði komist að sinni niðurstöðu í því.
Karl og Sigríður ákváðu hins vegar að bíða ekki lengur og stefndu ríkinu síðastliðið haust. Málið er enn á borði lögreglu að sögn Láru.