Borgarverk í Borgarnesi bauð lægst í gerð nýs vegar að Seljalandsfossi en tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni í gær. Leggja á nýja veginn mun vestar en núverandi vegur liggur, með gatnamótum við Suðurlandsveg fjær brekkurótunum en nær Markarfljótsbrú, samkvæmt breyttu aðalskipulagi, sem sveitarstjórn Rangárþings eystra samþykkti fyrir ári.

Nýi vegurinn verður um 1,1 kílómetra langur. Hann mun liggja frá hringveginum og tengjast núverandi Þórsmerkurvegi við Gljúfurá en þar eru tjaldsvæðið á Hamragörðum og fossinn Gljúfrabúi. Verkið á vinna hratt og á því að vera að fullu lokið fyrir 1. júlí í sumar.
Núverandi vegur verður þó áfram aðkomuleið að skógræktarsvæði við Kverkarhelli. Jafnframt er legu göngu- og reiðleiða á svæðinu breytt.
Tilboð Borgarverks hljóðaði upp á tæpar 48,8 milljónir króna og var nánast á pari við áætlaðan verktakakostnað, sem var upp á 48,7 milljónir króna. Næstlægsta boð átti Þjótandi á Hellu, 52,2 milljónir króna, sem var sjö prósent yfir kostnaðaráætlun.
Alls bárust sjö tilboð í verkið, það hæsta frá Snóki verktökum á Akranesi upp á 146,6 milljónir króna, sem er þreföld kostnaðaráætlun.

Hér má sjá athyglisvert myndband sem vegfarandi tók sumarið 2017 af ástandinu við Seljalandsfoss: