Innlent

Vonast eftir því að skimun á Keflavíkurflugvelli verði hætt sem fyrst

Andri Eysteinsson skrifar

Forstjóri ferðaskrifstofunnar Úrvals útsýnar segist vonast til þess að skimunum vegna kórónuveirunnar á Keflavíkurflugvelli verði hætt sem fyrst. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri ferðaskrifstofunnar ræddi við Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag.

„Núna er verið að upplýsa betur hvernig aðstæður eru á hverjum stað, hver skilyrðin eru og þá þorir fólk að fara. Svo vonumst við bara til þess að þeir hætti skimuninni hérna og hleypi okkur Íslendingum fram og til baka til Tenerife og Alicante“ sagði Þórunn eftir að hafa greint frá því að aðsókn í ferðir á vegum Úrvals útsýnar væri að aukast.

„Við viljum geta farið hérna fram og til baka án þess að lenda í skimun í Keflavík.“

Þórunn sagði fólk vera byrjað að spá og spekúlera í mögulegum utanlandsferðum og sagði ferðaskrifstofuna miðla upplýsingum til Íslendinga um stöðuna í öðrum löndum. Hún sagði þá að gríðarleg aukning hafi verið á vefnum hjá ferðaskrifstofunni en nýverið hófst sala í vélar til Spánar.

„Fólk hefur kannski ekki verið undirbúið fyrir að þetta myndi gerast svona fljótt. Við vonumst til þess að fylla vélarnar í byrjun júlí,“ sagði Þórunn.

Þórunn sagði að daglega bærust ný tilboð frá hóteleigendum ytra og hafi verð því verið að lækka aðeins. „Það er enginn munur á þeim og okkur Íslendingunum sem eru að taka á móti útlendingum. Spánverjar fagna því verulega að við séum að koma Íslendingum út í sólina til þeirra.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×