Erlent

Twitter takmarkar aðgang að tísti forsetans

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Donald Trump tístir mikið. Hann hefur í heildina tíst oftar en 53 þúsund sinnum.
Donald Trump tístir mikið. Hann hefur í heildina tíst oftar en 53 þúsund sinnum. Rafael Henrique/Getty

Samfélagsmiðillinn Twitter hefur dregið úr aðgangi að tísti Donalds Trump Bandaríkjaforseta, þar sem hann hótar að beita hvern þann sem reynir að koma á fót sjálfstjórnarsvæði í Washington D.C., höfuðborg Bandaríkjanna, valdi. Tístið birti forsetinn í dag.

Tístið telst brjóta í bága við notendaskilmála Twitter um ofbeldisfulla hegðun.

Orðrétt tístir forsetinn: „Það verður aldrei „sjálfstjórnarsvæði“ í Washinton D.C. meðan ég er forsetinn ykkar. Ef þau reyna verður þeim mætt með alvarlegu valdi.“

Þrátt fyrir að brjóta í bága við skilmála Twitter leyfði samfélagsmiðlarisinn tístinu að standa áfram. Ástæða þess er að Twitter metur málið sem svo að það geti varðað almannahagsmuni að færsla forsetans sé aðgengileg almenningi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Twitter hefur sett fyrirvara við tíst forsetans eða falið þau. Í lok maí tísti Trump samsæriskenningu um að kjörseðlar sem sendir eru heim til fólks (e. mail-in ballots) leiði til kosningasvika. Færði forsetinn engar sönnur fyrir þeirri kenningu sinni. Twitter brást við þessu með því að setja fyrirvara á tíst forsetans og vísaði á hlekk sem leiddi á vefslóð þar sem hægt var að fá nánari upplýsingar um umrædda kjörseðla.

Nokkrum dögum síðar tísti forsetinn um óeirðirnar sem ríkt hafa í Bandaríkjunum upp á síðkastið vegna morðsins á George Floyd, en hann lést í Minneapolis í Minnesota þegar lögreglumaður hélt hné sínu að hálsi hans í tæpar níu mínútur. Andlát Floyd leiddi til stórfelldra mótmæla um öll Bandaríkin og víðar, og vakti upp umræðu um rótgróið og kerfisbundið ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum gagnvart svörtu fólki.

Í því tísti sagði Trump að mótmælendur væru „óþokkar“ og þeir væru að vanhelga minningu Floyd. Hann hefði talað við ríkisstjóra Minnesota, Tim Walz, og tjáð honum að herinn stæði með honum. Tístið endaði svo á orðunum „Þegar ránin hefjast, hefst skothríðin. Takk fyrir!“

Þetta tíst taldi Twitter sömuleiðis brjóta í bága við skilmála sína, og sagði það hafa hvatt til ofbeldis. Aðgangur að því tísti var einnig heftur, þannig að ekki var hægt að setja „like“ við það né svara því. Tístinu var þó leyft að standa, á sömu forsendum og tístinu sem forsetinn birti í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×