Paul Pogba, miðvallarleikmaður Manchester United, er búinn að ná sér af ökklameiðslum sem hafa plagað hann frá því tímabilið fór af stað síðasta haust. Samkvæmt heimildum The Athletic er talið mjög ólíklegt að hann verði í byrjunarliði Man United þegar enska úrvalsdeildin fer aftur af stað.
Manchester United mætir Tottenham Hotspur í Lundúnum þann 19. júní.
Pogba spilaði síðast á annan í jólum en hefur æft vel síðan félög á Englandi máttu koma saman að nýju og æfa á hefðbundinn hátt. Þrátt fyrir það virðist sem Ole Gunnar Solskjær, þjálfari Man Utd, sé ekki tilbúinn að setja Pogba í byrjunarliðið.
Þá hafa margir velt því fyrir sér hvort Pogba geti spilað við hlið Bruno Fernandes en Portúgalinn gekk í raðir félagsins í janúar frá Sporting Lisbon og hefur verið stórkostlegur.
Gary Neville, sérfræðingur Sky Sports sem og fyrrum leikmaður Man Utd, hefur blásið á þær sögusagnir.
„Skil ekki neikvæðnina varðandi ´Hvernig Pogba og Fernandes passa saman.´ Það er ekki eins og þeir verði báðir djúpir. Við höfum séð Kevin De Bruyne og David Silva spila saman á þriggja manna miðju í þrjú ár,“ sagði Neville í Twitter-færslu á dögunum.
I don t understand the sentiment of How do Pogba and Fernandes fit together . They won t be in a 2 sitting! With more fluid systems today than 20 years ago it should be simple. We ve just watched De Bruyne and David Silva play together for 3 years in a MDF 3.
— Gary Neville (@GNev2) June 13, 2020
Solskjær vill samt helst spila 4-2-3-1 leikkerfi og því óljóst hvar leikmennirnir passa inn í þá uppstillingu. Mögulega gæti Norðmaðurinn stillt liði sínu upp í 4-3-1-2 leikkerfi með nokkurs konar tígulmiðju.
Það verður forvitnilegt að sjá hvernig Solskjær kemur þeim tveimur fyrir í liði sínu en það er ljóst að miðja með Paul Pogba og Bruno Fernandes upp á sitt besta væri illviðráðanleg.