Enski boltinn

Jiménez jafnaði bestu vítaskyttu sögunnar

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Raul Jiménez er einn af aðeins tveimur leikmönnum sem hafa skorað úr öllum sínum vítum.
Raul Jiménez er einn af aðeins tveimur leikmönnum sem hafa skorað úr öllum sínum vítum. Ryan Pierse/Getty Images

Raul Jiménez skoraði úr vítaspyrnu í gærkvöldi og jafnaði þar með met Yaya Touré, bestu vítaskyttu í sögu ensku úrvalsdeildarinnar.

Jiménez skoraði af öryggi úr spyrnunni og tryggði Fulham 1-0 sigur gegn Nottingham Forest. Hann hefur þurft að bíða lengi eftir tækifærinu því þetta var fyrsta vítaspyrna Fulham síðan í janúar.

Mexíkóski framherjinn hefur nú skorað úr öllum sínum ellefu vítaspyrnum í deildinni, líkt og Yaya Touré. 

Þeir tveir eru einu vítaskytturnar sem hafa tekið fleiri en tíu víti og skorað úr þeim öllum en Cole Palmer átti fyrra fullkomna metið, tólf mörk úr tólf vítum, áður en hann klúðraði víti gegn Leicester á síðasta tímabili.

Jiménez þarf því núna að skora úr næstu tveimur vítum til að eigna sér metið algjörlega.

Fyrrum Brentford liðsfélagarnir Bryan Mbeumo og Ivan Toney voru báðir með tíu mörk úr sínum tíu fyrstu spyrnum en klikkuðu á þeirri elleftu.

Yaya Touré var örugg vítaskytta fyrir Manchester City. Nordic Photos/Getty Images

Og þó þeir Jimenéz og Touré séu fullkomnar skyttur eiga þessir menn langt í land með að skora flest mörk úr vítum.

Alan Shearer (56), Frank Lampard (43), Mohamed Salah (35), Harry Kane (33) og Steven Gerrard (32) hafa skorað mest allra úr vítum en komast ekki á listann yfir sparkvissustu skytturnar.

Sparkvissustu vítaskyttur í sögu ensku úrvalsdeildarinnar 

  • Yaya Touré – 100% (11/11)
  • Raúl Jiménez – 100% (11/11)
  • Matt Le Tissier – 96.2% (25/26)
  • Danny Murphy – 94.7% (18/19)
  • Callum Wilson – 94.1% (16/17)
  • James Beattie – 94.1% (16/17)
  • Julian Dicks – 93.8% (15/16)
  • Cole Palmer – 92.9% (13/14)
  • Bukayo Saka – 92.3% (12/13)
  • Thierry Henry – 92% (23/25)



Fleiri fréttir

Sjá meira


×