Alfreð Þorsteinsson, fyrrverandi borgarfulltrúi og stjórnarformaður Orkuveitunnar, er látinn, 76 ára að aldri.
Þetta kemur fram á heimasíðu Knattspyrnufélagsins Fram, en Alfreð var heiðursfélagi í félaginu. Segir að hann hafi andast í nótt.
Alfreð var lengi virkur í starfi Framsóknarflokksins og varð varaborgarfulltrúi árið 1970 og svo borgarfulltrúi á árunum 1971 til 1978. Hann tók aftur sæti í borgarstjórn árið 1994 eftir kosningasigur Reykjavíkurlistans og átti hann þar sæti öll þau þrjú kjörtímabil sem listinn bauð fram. Alfreð dró sig svo í hlé fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006.
Árið 1994 tók hann við formennsku í stjórn veitustofnana borgarinnar og undir hans stjórn voru Rafmagnsveitan og Hitaveitan sameinuð undir merkjum Orkuveitu Reykjavíkur.
![](https://www.visir.is/i/B9BC7022785E96189A5B08204E3AD0A18E6236349FD9EA159AB4184BF92125DA_713x0.jpg)
Á heimasíðu Knattspyrnufélagsins Fram segir að Alfreð hafi lengi verið áberandi í störfum félagsins. Tók hann þannig við við formennsku knattspyrnudeildar félagsins 21 árs gamall.
Hann var kjörinn formaður Fram árið 1972 og gegndi stöðunni til ársins 1976. Hann tók svo aftur við formennsku í félaginu 1989 og gegndi henni til ársins 1994. Alfreð var útnefndur heiðursfélagi Fram á 90 ára afmæli félagsins árið 1998.
Alfreð lætur eftir sig eiginkonuna Guðnýju Kristjánsdóttur og dæturnar Lilju Dögg Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra og Lindu Rós Alfreðsdóttur, sérfræðing í félagsmálaráðuneytinu. Barnabörn Alfreðs og Guðnýjar eru þrjú.