Fjórum lögreglumönnum var sagt upp störfum í Minnesota í Bandaríkjunum eftir að svartur karlmaður lést í höndum lögreglu á mánudagskvöld. Myndband náðist af atvikinu sem leitt hefur til fjölmennra mótmæla og óeirða í ríkinu. Bandaríska alríkislögreglan, FBI, hefur andlát mannsins nú til rannsóknar.
Maðurinn hét George Floyd, var 46 ára og vann sem öryggisvörður á veitingastað. Hann var handtekinn í Minneapolis, höfuðborg Minnesota, á mánudagskvöld. Í myndbandi sem tekið var upp af vettvangi handtökunnar sést hvítur lögreglumaður krjúpa ofan á Floyd og þrýsta hné sínu á háls honum.
Floyd heyrist hrópa: „Ég næ ekki andanum,“ og „ekki drepa mig!“ þar sem hann liggur á jörðinni í tökum lögreglumannsins. Vegfarendur sem fylgdust með báðu lögreglumanninn um að létta á takinu og bentu á að Floyd lægi hreyfingarlaus. Myndbandið má nálgast hér en rétt er að vara lesendur við efni þess.
Mál Floyds þykir minna um margt á mál Erics Garner, svarts karlmanns sem lést í höndum lögreglu á götum New York-borgar árið 2014. Dauði Garner varð einnig kveikja að mótmælum og óeirðum í New York. Síðustu orð Garner voru „Ég næ ekki andanum“.
Medaria Arradondo, lögreglustjóri í Minneapolis, tilkynnti í gær að fjórir lögreglumenn væru nú „fyrrverandi starfsmenn“ lögregluembættisins. Jacob Frey, borgarstjóri Minneapolis, staðfesti síðdegis í gær að lögregluþjónunum hefði verið sagt upp störfum. Það hefði verið „rétt ákvörðun“.
Hundruð mótmælenda söfnuðust saman á götum borgarinnar vegna andláts Floyd í gærkvöldi. Sumir mótmælenda báru skilti með orðunum „Ég næ ekki andanum“ og „ákærum lögregluna“. Fjölmiðlar vestanhafs greina frá því að um hafi verið að ræða fjölmennustu mótmæli gegn lögregluofbeldi í garð svartra á síðustu árum.
Margir mótmælendur létu reiði sína í ljós við lögreglumenn sem stóðu vaktina á staðnum; hentu í þá vatnsflöskum og hrópuðu að þeim ókvæðisorð. Lögregla sprautaði að endingu táragasi yfir hópinn er hann nálgaðist lögreglustöðina.
Bandaríska alríkislögreglan, FBI, ásamt borgaryfirvöldum í Minneapolis, tilkynnti í gær að rannsókn væri hafin á andláti Floyds.