Erlent

Heimilis­föng heiðurs­verð­launa­hafa birt

Hallgerður Kolbrún E. Jónsdóttir skrifar
Nadiya Hussain, sjónvarpskokkur, (t.v.) og Elton John, tónlistarmaður (t.h).
Nadiya Hussain, sjónvarpskokkur, (t.v.) og Elton John, tónlistarmaður (t.h). getty/Dia Dipasupil/Ben A. Pruchnie

Heimilisföng meira en þúsund handhafa Nýársheiðurs Bretlands, þar á meðal háttsettra lögreglumanna og stjórnmálamanna, voru óvart birt af yfirvöldum. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.

Skránni var hlaðið upp á opinbera vefsíðu yfirvalda en hefur síðan verið fjarlægð. Talsmaður forsætisráðuneytisins sagði í samtali við breska ríkisútvarpið: „Við biðjum alla þá sem urðu fyrir áhrifum innilegrar afsökunar og erum að skoða hvað kom fyrir.“

Meðal þeirra heimilisfanga sem voru birt er heimilisfang Elton John og fyrrverandi ríkissaksóknara, Alison Saunders. Meðal þeirra 1.097 á listanum voru krikketleikmaðurinn Ben Stokes, fyrrverandi leiðtogi Íhaldsflokksins Iain Duncan Smith, Nadiya Hussain sjónvarpskokkur og fyrrverandi framkvæmdarstjóri Ofcom Sharon White.

Talsmaður yfirvalda sagði að skráin hafi lekið fyrir slysni og hafi verið fjarlægð um leið og hægt var. „Ein útgáfa Nýársheiðurslistans 2020 var birt af slysni þar sem heimilisföng komu fram,“ sagði hann.

„Upplýsingarnar voru fjarlægðar um leið og hægt var. Við höfum tilkynnt málið og erum að láta þá sem þetta hafði áhrif á vita.“

Heimildarmaður sagði í samtali við BBC að hann hafi opnað skránna á heimasíðu yfirvalda, gov.uk, rétt eftir miðnætti á aðfaranótt laugardags en hafi ekki getað gert það klukkan fimm um morguninn á staðartíma.

Forsætisráðuneytið segir að gögnin hafi verið aðgengileg í rúman klukkutíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×