Greint er frá þessu á vef danska ríkisútvarpsins DR1 eftir að Trump gagnrýndi viðbrögð Frederiksen við bón hans um að kaupa Grænlandi. Sagði Trump á blaðamannafundi í dag að hann teldi viðbrögð danska forsætisráðherrans andstyggileg.
Trump var væntanlegur í opinbera heimsókn annan og þriðja dag septembermánaðar en aflýsti henni skyndilega seint í gærkvöldi. Sagði hann ástæðuna vera þá að Mette Frederiksen hefði sýnt fram á að hún hefði engan áhuga á að hefja viðræður um kaup Bandaríkjanna á Grænlandi.

„Mér fannst yfirlýsing forsætisráðherrans, að hugmyndin mín sé fáránlega, vera andstyggileg. Mér fannst þetta óviðeigandi yfirlýsing. Henni hefði nægt að segja einfaldlega nei, að þau hefðu ekki áhuga,“ sagði Trump við fréttamenn.
Frederiksen neitaði í kvöld að hafa verið of harðorð þegar hún tjáði sig um áhuga Trump á að kaupa Grænland. Ítrekaði hún mikilvægi þess að rými þyrfti að vera til staðar fyrir ágreining á milli vinaríkja líkt og Danmerkur og Bandaríkjanna.