Erlent

Utanríkisráðherra Íran mætti óvænt til fundar G7 ríkjanna

Andri Eysteinsson skrifar
Leiðtogarnir á fundi í Biarritz.
Leiðtogarnir á fundi í Biarritz. Getty/ Jeff J Mitchell
Utanríkisráðherra Íran, Mohammad Javad Zarif, heiðraði leiðtoga G7 ríkjanna með nærveru sinni í óvæntri heimsókn til franska bæjarins Biarritz hvar leiðtogarnir eru saman komnir til þess að ráða sínum ráðum.

Flugvél Zarifs flaug af stað frá írönsku höfuðborginni Tehran snemma á sunnudagsmorgun og lenti nokkrum klukkutímum síðar á flugvellinum í Biarritz sem hefur undanfarna daga verið lokaður fyrir umferð óviðkomandi leiðtogafundi G7 ríkjanna.

Samkvæmt heimildum AP fór Zarif beint á fund franska utanríkisráðherrans Jean-Yves Le Drian. Samkvæmt upplýsingafulltrúa íranska utanríkisráðuneytisins var Zarif í Biarritz í boði Le Drian auk þess sem að engir fundir með bandarískum erindrekum eru áformaðir í Biarritz.

Tillögur um að Macron færi fyrir G7 í málefnum Íran

Zarif hafði áætlað að halda í ferðalag um Asíu til þess að afla stuðnings við Íran í deilunni við Bandaríkin um kjarnorkusamkomulagið sem Bandaríkin sögðu sig frá í maí árið 2018. Óvænt heimsókn Zarif hentaði vel því leiðtogarnir höfðu nýlokið umræðum um málefni Íran og var þar að mestu ákveðið að Frakkland og forseti landsins, Emmanuel Macron skildi fara fyrir G7 ríkjunum í samskiptum við Íran. Herma heimildir AP að Bandaríkjaforseti hafi þó ekki samþykkt hugmyndina.

Á fundi G7 ríkjanna eru leiðtogar Bretlands, Boris Johnson, Frakklands, Emmanuel Macron, Þýskalands, Angela Merkel, Japan, Shinzo Abe, Kanada, Justin Trudeau, Ítalíu, Giuseppe Conte auk Donald Tusk, fulltrúa Evrópusambandsins.

Þá hefur einnig öðrum leiðtogum ríkja verið boðið á hluta fundanna auk forseta, aðalritara og forstjóra alþjóðasamtaka.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×