Það kemur í ljós um klukkan ellefu í dag hver verður næsti leiðtogi breska Íhaldsflokksins og þar með næsti forsætisráðherra Breta. Valið stendur á milli Jeremy Hunt og Boris Johnson og er Johnson talinn sigurstranglegastur.
Verið er að telja atkvæðin en kosningu á meðal flokksmeðlima lauk síðdegis í gær. Um 160 þúsund meðlimir Íhaldsflokksins tóku þátt. Nýr leiðtogi tekur síðan við sem forsætisráðherra af Theresu May á morgun. May mun í dag stýra sínum síðasta ríkisstjórnarfundi í dag, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.
Johnson hefur gefið í skyn að hann gæti dregið Bretland út úr Evrópusambandinu án útgöngusamnings þegar fyrirhugaður útgöngudagur rennur upp í lok október. Af þeim sökum hafa nokkrir í forystusveit flokksins lýst því yfir að þeir muni ekki starfa með honum í ríkisstjórn, þar á meðal Philipp Hammond, fjármálaráðherra.
