Skoðun

Fótboltastríð

Hanna Katrín Friðriksson skrifar
Það er óþarfi að fara mörgum orðum um þá snilld sem kvikmyndin Kona fer í stríð er. Mig langar samt að verja þeim nokkrum á heiti myndarinnar, sem í mínum huga gefur frábær fyrirheit sem myndin stendur síðan fyllilega undir. Almennt fara konur ekki í stríð (af neinum toga). Það er ekkert langt síðan það hefði bara verið afskaplega óviðeigandi tilhugsun. Herskáar konur. Svei.

Það er heldur ekkert langt síðan, svona þegar litið er yfir mannkynssöguna, að konur hófu að iðka keppnisíþróttir. Til dæmis fótbolta. Og enn styttra síðan það varð almennt viðurkennt að þær kynnu eitthvað fyrir sér þar og það væri í alvöru jafn gaman að horfa á góðan kvennafótboltaleik og karlafótboltaleik.

Sem betur fer erum við komin á þann stað núna að víða í hinum vestræna heimi eru aðstæður stúlkna til að æfa þær íþróttir sem þeim sýnist á pari við aðstæður drengja. Við vitum öll að enn er langt í land með að hið fullkomna jafnrétti náist, en það er eins og það er.

Um síðustu helgi lauk flottasta heimsmeistaramóti í kvennafótboltanum sem sagan hefur að geyma og þar sem áhorfendamet voru slegin hægri, vinstri. Það er líklega engin fótboltaáhugamanneskja sem ekki veit að Bandaríkin unnu gullið. Þær fóru ósigraðar í gegnum úrslitakeppnina og vörðu titilinn sem þær unnu líka í Kanada fyrir fjórum árum.

Bandaríska liðið er best í heimi. Um það eru fjölmiðlar sammála. En það er líka fyrirferðarmikil umfjöllun í heimspressunni um aðra þætti liðsins sem ekki virðast vekja jafn mikla hrifningu. Þær tala svo mikið um að vilja vinna. Hvað þær hafi lagt á sig. Hvað þær vilji uppskera. Hvað þeim finnst þær eigi að uppskera. Ekki nægilega lítillátar. Fagna mörkunum of mikið. Of glaðar þegar þær vinna. Of montnar. Ekki nægilega auðmjúkar. Of herskáar.

Svolítið eins og þær séu konur í stríði.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×