Innlent

Heildarlaun að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur með yfir að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.
Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur með yfir að því er fram kemur á vef Hagstofunnar. fréttablaðið/stefán
Árið 2018 voru heildarlaun fullvinnandi launamanna að meðaltali 721 þúsund krónur á mánuði.

Miðgildi heildarlauna var 632 þúsund krónur og því helmingur launamanna með laun undir þeirri upphæð og helmingur með yfir að því er fram kemur á vef Hagstofunnar.

Þar segir að munur meðaltals og miðgildis skýrist meðal annars af því að hæstu laun hækki meðaltalið en kjarasamningar tryggi ákveðin lágmarkskjör án þess að kveða á um hámarkskjör.

„Þegar horft er á dreifingu heildarlauna var algengast að mánaðarleg heildarlaun væru á bilinu 550 til 600 þúsund krónur og var rúmlega tíundi hver fullvinnandi launamaður með heildarlaun á því bili,“ segir á vef Hagstofunnar.

Nokkur munur er á meðaltali heildarlauna hjá fullvinnandi starfsmönnum á almenna vinnumarkaðnum og svo hjá ríkisstarfsmönnum. Þá eru starfsmenn sveitarfélaga með lægstu heildarlaunin að meðaltali:

„Heildarlaun á almennum vinnumarkaði voru að meðaltali 729 þúsund krónur á mánuði árið 2018 hjá fullvinnandi starfsmönnum. Heildarlaun ríkisstarfsmanna voru 818 þúsund krónur að meðaltali en 593 þúsund krónur hjá starfsmönnum sveitarfélaga.

 

Dreifing heildarlauna var ólík eftir launþegahópum, þannig voru um 70% starfsmanna sveitarfélaga með heildarlaun undir 650 þúsundum króna á mánuði en það sama átti við um 35% ríkisstarfsmanna og tæplega 55% starfsmanna á almennum vinnumarkaði.

Um 5,5% starfsmanna á almennum vinnumarkaði og ríkisstarfsmanna var með heildarlaun yfir 1.400 þúsund krónur á mánuði en óverulegur hluti starfsmanna sveitarfélaga var með þau laun,“ segir á vef Hagstofunnar þar sem nálgast má frekar upplýsingar um laun og launadreifingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×