Erlent

May hættir sem leiðtogi Íhaldsmenna

Atli Ísleifsson skrifar
Theresa May tók við formennsku í Íhaldsflokknum í júlí 2016.
Theresa May tók við formennsku í Íhaldsflokknum í júlí 2016. Getty
Breski forsætisráðherrann Theresa May mun formlega láta af embætti sem leiðtogi Íhaldsflokksins í dag. Hún mun hins vegar sitja áfram sem forsætisráðherra uns flokksmenn hafa valið sér nýjan leiðtoga, sem mun þá taka við forsætisráðherraembættinu í landinu.

May kynnti þessar fyrirætlanir sínar fyrir hálfum mánuði og sagðist þá sjá mikið eftir því að hafa mistekist að sigla Brexit-málum í höfn. Upphaflega stóð til að Bretland myndi yfirgefa ESB þann 29. mars síðastliðinn. Útgöngu var svo frestað til 12. apríl og til þar 31. október þar sem ekki hefur tekist að fá breskan þingheim til að samþykkja útgöngusáttmála breskra stjórnvalda og framkvæmdastjórnar ESB.

Ellefu Íhaldsmenn eru taldir sækjast eftir leiðtogahlutverkinu en opnað verður fyrir tilnefningar á mánudaginn kemur. Nefnd á vegum flokksins stefnir að því að tveir frambjóðendur verði eftir í baráttunni um leiðtogaembættið þann 20. júní. Flokksmenn munu svo kjósa milli þeirra og verður nýr leiðtogi flokksins kynntur á landsfundi flokksins þann 22. júlí.

Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra og borgarstjóri Lundúna, og umhverfisráðherrann Michael Gove eru taldir líklegastir til að taka við embættinu af May.

May tók við formennsku í Íhaldsflokknum í júlí 2016 í kjölfar afsagnar David Cameron.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×