• Innskráning
  • Skoðun

    Persónuvernd barna – innan heimilis og utan

    Steinunn Birna Magnúsdóttir skrifar
    Persónuvernd og friðhelgi einkalífs eru ein mikilvægustu mannréttindi sem til eru. Á tímum stafræns veruleika þar sem persónuupplýsingar eru orðnar einn helsti gjaldmiðill samfélagsins eykst nauðsyn þess að allir, ekki síst börn og ungmenni, þekki helstu réttindi sín og skyldur. Persónuupplýsingar barna njóta í raun sérstakrar verndar, þar sem þau kunna að vera síður meðvituð um réttindi sín, áhættu og afleiðingar í tengslum við meðferð þeirra, bæði innan heimilis og utan.

    Persónuvernd hefur það lögbundna hlutverk að efla vitund almennings um reglur og réttindi tengd vinnslu persónuupplýsinga. Lögð hefur verið áhersla á að standa vörð um málefni barna og hefur Persónuvernd í því skyni m.a. haldið málþing fyrir öll skólastigin, gefið út tilmæli vegna samfélagsmiðlanotkunar í skólum og frístundastarfi, flutt erindi víða og fjallað um efnið í fjölmiðlum. Nú á dögunum sendi Persónuvernd bréf og fræðslubæklinga í alla grunnskóla landsins þar sem fjallað er um grunnatriði um persónuvernd barna, bæði fyrir kennara og aðra þá sem vinna með upplýsingarnar og einnig fyrir börnin og ungmennin sjálf. Í bréfinu eru skólastjórnendur hvattir til þess að kynna efnið fyrir kennurum, öðru starfsfólki og nemendum.

    Mikið starf hefur þegar verið unnið í vitundarvakningu um persónuvernd, en betur má ef duga skal. Við búum í síbreytilegum heimi þar sem tækninni fleygir fram á ljóshraða. Tæknin færir okkur mörg ný tækifæri en á sama tíma hefur aldrei verið mikilvægara að einstaklingurinn standi vörð um þessi mikilvægu mannréttindi sín. Stafræn fótspor barna byrja jafnvel að myndast áður en þau fæðast og netnotkun hefst sífellt fyrr á æviskeiðinu. Því er mikilvægt að fræðsla um persónuvernd og netöryggi verði hluti af daglegu lífi þeirra strax frá frumbernsku, rétt eins og umferðarreglurnar. Til að stuðla að því markmiði mun Persónuvernd halda áfram að setja málefni barna í forgang og stefnt er að því að útbúa meira fræðsluefni í því skyni.



    Höfundur er lögfræðingur og verkefnastjóri yfir málefnum barna hjá Persónuvernd.




    Skoðun

    Sjá meira


    ×