Fjórir voru fluttir alvarlega slasaðir með þyrlu Landhelgisgæslunnar til Reykjavíkur en þrír þeirra voru enn á gjörgæslu í gær. Meiðsl annarra farþega voru minniháttar en alls voru ferðamennirnir í rútunni 32, allir frá Kína.
Sjá einnig: Þriðja stórslysið á 100 kílómetra kafla á Suðurlandsvegi
Sveinn Kristján Rúnarsson yfirlögregluþjónn á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að búið sé að ræða við flesta farþegana. Útlit sé fyrir að þeir hafi fæstir verið í bílbeltum þegar slysið varð.
„Þetta er mjög misskipt eftir þjóðarbrotum, eftir því hver menningin er. Og bílstjórar eru að lenda í vandræðum með mörg þjóðarbrot sem virða þetta ekki og hlusta ekki á tilmæli og ábendingar um að nota belti.“

„Og ég veit að stærstur hluti bílstjóra er mjög samviskusamur með það. En það er ekki á þeirra ábyrgð að fólk sé í beltum, ekki nema fyrir þá sem eru undir fimmtán ára aldri. Þeir vissulega gefa allflestir upplýsingar og leiðsögumenn benda á þetta yfirleitt.“
Þá eru tildrög slyssins enn til rannsóknar en komið hefur fram að vegurinn á umræddum kafla er afar þröngur.