Sóknarprestur Notre-Dame í París hefur lagt til að kirkju úr timbri verði komið upp tímabundið á torginu fyrir framan dómkirkjuna á meðan framkvæmdir við endurbyggingu standa yfir.
Gríðarmiklar skemmdir urður á 850 ára gamalli kirkjunni í stórbruna sem varð á mánudagskvöld. Greint var frá því fyrr í kvöld að rannsakendur telji að skammhlaup hafi valdið eldsvoðanum.
Sóknarpresturinn Patrick Chauvet segir í samtali við frönsku stöðina CNews að slík timburkirkja myndi þjóna bæði biðjendum og ferðamönnum.
Emmanuel Macron Frakklandsforseti hefur sagt að kirkjan verði endurbyggð og opnuð á ný innan fimm ára. Chauvet segir hins vegar nauðsynlegt að finna einhverja lausn til bráðabirgða á meðan framkvæmdirnir standa yfir.
„Við getum ekki sagt að „dómkirkjan sé lokuð næstu fimm árin og þannig er það bara“. […] Get ég ekki látið reisa tímabundna dómkirkju á torginu,“ spyr Chauvet og bætir við að slík bygging ætti að vera falleg, táknræn og heillandi.
Anne Hidalgo, borgarstjóri Parísarborgar ku vera samþykk tillögunni.
Í frétt BBC segir að fordæmi sé fyrir slíkri byggingu en timburkirkju var komið fyrir fyrir framan dómkirkjuna í Christchurch á Nýja-Sjálandi eftir að sú skemmdist mikið í skjálftanum mikla árið 2011 þar sem 185 manns fórust.
Timburkirkju mögulega komið upp fyrir framan Notre-Dame

Tengdar fréttir

Kalla eftir tillögum að nýrri spíru frá arkitektum heimsbyggðarinnar
Frönsk yfirvöld munu bjóða arkitektum víða um heim að senda inn tillögur að hönnun á nýrri spíru fyrir Notre Dame dómkirkjuna. Eldri spíran varð eldinum sem geysaði í kirkjunni á mánudaginn að bráð.

Drónamyndir varpa ljósi á gríðarlegar skemmdir
Feiknastór göt eru á Notre Dame-dómkirkjunni, einkum þar sem þak hennar og spíra féllu saman.

Skammhlaup líklegasta skýring brunans í Notre-Dame
Rannsakendur í Frakklandi telja að skammhlaup sé líklegasta skýringin á brunanum sem kom upp í Notre-Dame í París á mánudag.