Skoðun

Með framendann fastan í afturendanum

Sif Sigmarsdóttir skrifar
Hugvitssemi mannsins virðast engin takmörk sett. Hann beislar náttúruna, læknar drepsóttir, hefur sig til flugs (engar áhyggjur, þetta er ekki pistill um WOW), alla leið út í geim.

Í vikunni hætti Geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, við geimgöngu sem hefði orðið sú fyrsta í sögunni sem aðeins væri mönnuð konum. Ástæðan var sú að ekki voru til nógu margir geimbúningar í kvennastærðum. Það sem hefði átt að vera stórt skref fyrir kvenkynið varð þvert á móti enn önnur staðfesting þess að við lifum í veröld sem smíðuð er af körlum fyrir karla.

Ímyndaðu þér heim þar sem farsíminn þinn er of stór fyrir lófann á þér, læknirinn þinn skrifar upp á lyf fyrir þig sem eru ekki ætluð þér, þú býrð við 47% auknar líkur á að slasast alvarlega í umferðarslysi og þú færð ekki greitt fyrir vinnuna þína. Þannig blasir veröldin við þér ef þú ert kona.

Undirrituð mælti nýverið með á þessum vettvangi bók sem gerir nú allt vitlaust í Bretlandi og sýnir tölfræðilega fram á að konur eru hinn gleymdi helmingur mannkyns. Í tilefni fréttarinnar um NASA er rétt að tína til fleiri tölur úr bókinni um ósýnileika kvenna:

l Í 90% rannsókna í lyfjaiðnaði þar sem lyf eru prófuð á dýrum eru rannsóknirnar aðeins gerðar á karldýrum jafnvel þótt líkamsstarfsemi og hormónastarfsemi kynjanna sé ólík.

l Aðeins 11% þátttakenda í læknisfræðirannsóknum sem ætlað er að finna lækningu við alnæmi eru konur.

l Lyfjaprófun á lyfinu „Viagra fyrir konur“ var gerð á tuttugu og þremur körlum en aðeins tveimur konum.

l Konur sjá um 75% ógreiddra umönnunarstarfa á heimsvísu.

l Konur eyða sex klukkustundum á dag við ólaunuð störf en karlmenn sinna ólaunaðri vinnu frá þrjátíu mínútum í allt að tvo tíma á dag.

l Í Bretlandi eru konur þrisvar sinnum líklegri en karlar til að fara með börnin í skólann.

l Í Bandaríkjunum eyða karlar klukkustund lengur en konur á dag í tómstundir.

l Konum er oft kalt á skrifstofunni. Það er vegna þess að hitastig skrifstofa heimsins miðast við líkamshita sjötíu kílóa fertugs karlmanns.

l Konur búa við 70% aukna hættu á að þjást af þunglyndi. Lyf við sjúkdómnum eru þó nær eingöngu prófuð á körlum.

l Það eru 47% meiri líkur á að kona slasist alvarlega í árekstri því sætisbelti og loftpúðar bifreiða eru hönnuð með stærð meðal karlmanns að leiðarljósi.

l Kvenkyns píanóleikarar eru 50% líklegri til að slasast við leik sinn því píanó eru hönnuð með stærð karlmannshandar að leiðarljósi.

l Það eru ekki aðeins konur í röðum geimfara sem fá ekki á sig fatnað. 71% kvenna klæðist fatnaði við vinnu sem var ekki hannaður með þær í huga.

l Lögreglukonur klæðast stunguvestum sem eru hönnuð til að vernda karla.

l Meðal farsíminn er hannaður þannig að hann er of stór fyrir meðal kvenhönd.

l Karlmenn eru 100% lengur í mynd í kvikmyndum en konur.

l Konur fóru með 28% hlutverka í kvikmyndum sem ætlaðar eru allri fjölskyldunni á árunum 1990-2005.

l Aðeins 17% aukaleikara í kvikmyndum eru konur.

l 3,3% vinsælustu tölvuleikjanna eru með konu sem aðalsöguhetju.

l Helmingi meiri líkur eru á að kona fái ranga sjúkdómsgreiningu í kjölfar hjartaáfalls því einkenni hjartaáfalls hjá konum eru önnur en hjá körlum og heilbrigðisstarfsfólk þekkir þau síður.

l Í Bretlandi eru fleiri styttur af körlum sem heita John en styttur af konum.

Maðurinn er stórbrotin skepna. Hann beislar náttúruna, læknar drepsóttir, hefur sig til flugs, alla leið út í geim. En ekki alltaf. Stundum er jarðsamband mannsins svo náið að hann líkist helst ánamaðki sem skreiðist í hringi í kálgarði með framendann fastan í afturendanum.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×