Í frétt Vegagerðarinnar kemur fram að krafa Crist S.A. um viðbótargreiðslu sé ekki í samræmi við áður gerða samninga og hafi henni því verið hafnað. Vegagerðin hafi boðið stöðinni að ljúka greiðslum samkvæmt samningi og fá skipið afhent en vísa ágreiningi um greiðslurnar til þriðja aðila.
Þá kemur fram að smíði á nýjum Herjólfi sé nánast lokið en þó eigi eftir að klára minniháttar lagfæringar og prófanir á skipinu. Auk þess eigi Samgöngustofa eftir að ljúka skoðun sinni á fleyinu og staðfesta að gefa megi út haffærnisskírteini. Gera megi ráð fyrir að þessum verkum ljúki öðru hvoru megin við næstu mánaðamót.
Leita ráðgjafar sérfræðinga
Vegagerðin leitaði til erlendra sérfræðinga varðandi viðbrögð við kröfu stöðvarinnar um viðbótargreiðslu og var ákvörðun tekin um að hafna kröfunni þar sem hún eigi sér ekki stoð í samningi aðilanna.Lagði Vegagerðin til að ferjan yrði afhent í næstu viku gegn því að lokagreiðsla yrði innt af hendi í samræmi við samning, auk þess sem samþykkt aukaverk yrðu gerð upp. Kröfu stöðvarinnar yrði þá vísað til þriðja aðila til úrlausnar.
Stöðin hefur ekki fallist á þessa tillögu heldur stendur föst á kröfu sinni um greiðslu umfram samning og samþykkt aukaverk.
Í frétt Vegagerðarinnar kemur fram að líklegast sé að málið skýrist nánar í næstu viku en þangað til ríki áfram óvissa um hvenær nýr Herjólfur verði afhentur.