Þetta segir Björn Berg Gunnarsson, fræðslustjóri hjá Íslandsbanka, sem stóð fyrir fræðslufundi um barneignir og fjármál í dag.
Björn segist ekki vita hvers vegna feður taki minna fæðingarorlof og leikur hugur á að vita hvers vegna þessi mikla breyting hafi orðið á tilhöguninni. Hann segir að ástæðan gæti verið vegna hámarksgreiðslna úr Fæðingarorlofssjóði.
„Kannski er það að hafa þau áhrif að það er tekin sú ákvörðun að bara annað foreldrið taki langt orlof og það lendir þá augljóslega þannig að það eru konurnar sem eru að taka á sig að fara í lengra orlof. Þær eru þá að missa tekjur á meðan og að safna mun minni lífeyri á meðan á því stendur,“ segir Björn.
Færri börn og síðar á lífsleiðinni
Björn segir að fólk hér á landi eignist mun færri börn og seinna á lífsleiðinni en áður. Hann bendir á að þetta gæti orðið þróunin með meiri þátttöku kvenna á vinnumarkaði.„Það getur þá verið fylgifiskur þess að staða kvenna á vinnumarkaði sé sterkari og betri og þróunin sé þar í rétta átt en hún verði þá til þess að hugsanlega sé barneignum frestað og þá að færri börn eru að fæðast. Þetta virðist frekar vera að gerast í löndum þar sem er mikil velmegun.“

Erfitt að komast hjá tekjutapi með barneignum
Björn segir að það geti sett strik í reikninginn varðandi fjármál heimilisins að eignast barn þrátt fyrir heilmikilli aðstoð frá hinu opinbera.„Fæðingarorlofsgreiðslur hafa auðvitað hækkað, hámarkið hefur hækkað um 20 prósent á undanförnum tveimur árum, það er búið að hækka barnabætur, það er verið að greiða niður vist hjá dagforeldrum og allt mögulegt en samt sem áður er mjög erfitt að komast hjá því að verða fyrir umtalsverðu tekjutapi á meðan farið er í orlof til dæmis.
Það eru svo mikil útgjöld sem geta fylgt þessu, það vita það allir sem hafa eignast börn að það er dýrara að kaupa bílstól en maður kannski heldur. Það þarf að gera hitt og þetta og kaupa hitt og þetta og það er erfitt að þurfa að hafa áhyggjur af fjármálahliðinni þegar þar að kemur og gott að vera búin að undirbúa sig.“
Björn Berg fjallaði um börn og fjármál í útvarpsþættinum Reykjavík síðdegis í dag og má hlusta á viðtalið í spilaranum hér að neðan.