Dómari í Massachussets-ríki Bandaríkjanna hefur neitað beiðni Kevin Spacey um að leikarinn þurfi ekki að mæta í dómsal þegar honum verður formlega lesin ákæra fyrir að hafa ráðist kynferðislega á dreng á táningsaldri árið 2016.
Boston Globe greinir frá en í frétt blaðsins segir einnig að Spacey hyggist lýsa sig saklausan af ákærunni.
Ákæran varðar atvik sem átti sér stað í Nantucket árið 2016. Þá er Spacey sagður hafa keypt áfengi fyrir 18 ára gamlan dreng og síðan káfað á honum. Lögaldur fyrir áfengisdrykkju í Massachusetts er 21 ár. Drengurinn er sonur Heather Unruh, fyrrverandi sjónvarpskonu, sem greindi opinberlega frá atvikinu í fyrra.
Samkvæmt lögum í Massachusets þurfa sakborningar að mæta í dómsal þegar ákærur eru formlega lesnar, nema dómari samþykki að slíkt sé ekki nauðsynlegt.
Spacey hefur ekki komið fram opinberlega frá því að fyrstu ásakanirnar komu fram í nóvember í fyrra. Á dögunum birti hann hins vegar myndband af sér í anda Frank Underwood, útsmogna stjórnmálamannsins sem hann lék í „Spilaborg“.
„Ég ætla sannarlega ekki að greiða fyrir hluti sem ég gerði ekki. Þú myndir ekki trúa því versta án sannanna, er það?“ segir leikarinn í myndbandinu.