Í drögum samningsins er leyst úr þeim útgöngumálum sem við eiga með sambærilegum hætti og á milli Bretlands og ESB vegna útgöngunnar.
Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir að samningurinn muni meðal annars tryggja að Íslendingar sem búa í Bretlandi eða flytja þangað fyrir lok hins svokallaða bráðabirgðatímabils geti verið þar áfram og að réttindi þeirra verði í öllum grundvallaratriðum óbreytt. Þetta eigi sömuleiðis við um breska ríkisborgara sem búa á Íslandi.
Haft er eftir Guðlaugi Þór Þórðarsyni utanríkisráðherra að um afar þýðingarmikinn áfanga sé að ræða. „Þetta þýðir að við stöndum jafnfætis aðildarríkjum ESB þegar kemur að því að leysa úr málum sem tengjast útgöngu Bretlands úr sambandinu. Á meðan framhald málsins er enn sveipað nokkurri óvissu halda íslensk stjórnvöld áfram að búa sig undir mismunandi sviðsmyndir,“ segir Guðlaugur Þór.
Í samningnum er að finna ákvæði sem tryggja réttindi borgara til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu og tengd réttindi sem varða til að mynda almannatryggingar og viðurkenningu á starfsmenntun og hæfi. Ennfremur er í samningnum greitt úr ýmsum tæknilegum úrlausnarnefnum vegna útgöngu Bretlands úr EES á sviði vöruviðskipta, opinberra innkaupa, hugverkaréttinda, persónuverndar og tollamála.