Fjórðu helgina í röð mótmæltu hinir svokölluðu „gulvestungar“ Frakklandsforseta og ríkisstjórn hans. Í upphafi beindust mótmælaaðgerðirnar að hækkuðum álögum á eldsneyti en hafa síðan þróast út í almenna óánægju með efnahagsstefnu landsins.
Macron hyggst hækka laun þeirra lægst launuðu um hundrað Evrur í hverjum mánuði frá ársbyrjun 2019 auk þess að gera breytingar á skattkerfinu í þágu láglaunafólks. Þá hyggst hann afturkalla skerðingar á eftirlaunum.

Frakklandsforseti sagði að hann gæti hafa gefið þjóðinni ástæðu til að ætla að láglaunafólk væri ekki efst á forgangslistanum.
„Ég veit að orð mín hafa sært sum ykkar,“ segir Macron sem ætlar að koma til móts við kröfur mótmælenda og bæta samskiptin við almenning í landinu.
Í dag fundaði Macron með framámönnum í viðskiptalífinu og verkalýðsleiðtogum til að undirbúa ávarpið.
Mótmælin á laugardag einkenndust af skemmdarverkum og óeirðum. Kveikt var í bílum, rúður voru brotnar og skemmdir voru unnar á verslunum og veitingastöðum. Vest var ástandið í Parísarborg en einnig var mótmælt í Marseille, Bordeaux, Lyon, Nantes, Dijon og Toulouse.