24 ára gamall karlmaður var handtekinn í Amsterdam fyrr í mánuðinum grunaður um peningaþvætti. Lögregla fann háar fjárhæðir í þvottavél í aðsetri mannsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni í Hollandi en þar segir að aðgerðin hafi verið hluti af stærra átaki þar sem verið sé að rannsaka þá sem vitað er að búi í Amsterdam en séu hvergi skráðir til heimilis.
Lögreglan kannaði aðsetur mannsins sem um ræðir eftir að hafa fengið staðfest að enginn væri skráður til heimilis í íbúðinni. Þegar inn var komið blöstu við peningaseðlar í tromlu þvottavélar í íbúðinni, alls 350 þúsund evrur, um 50 milljónir króna.
Við frekari húsleit fundust fjölmargir símar, peningatalningavél og skotvopn. Maðurinn sem var handtekinn var viðstaddur húsleitina og var handtekinn á staðnum, grunaður um peningaþvætti.
Grunaður um peningaþvætti eftir að háar fjárhæðir fundust í þvottavél
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
