Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra segir að Norðurlöndin sýni dönskum yfirvöldum fulla samstöðu vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar á danskri jörð og greint var frá í gær.
Danskir fjölmiðlar greindu frá því að í gær að norskur ríkisborgari af írönskum uppruna hafi verið handtekinn í Svíþjóð 21. október, grunaður um að hafa aðstoðað írönsku leyniþjónustuna við að skipuleggja árás á danskri jörð.
Finn Borch Andersen, yfirmaður dönsku öryggislögreglunnar PET, útskýrði á fréttamannafundi aðgerðir lögreglunnar þann 28. september síðastliðinn, þar sem lögregla stóð fyrir umfangsmikilli aðgerð og lokaði meðal annars Eyrarsundsbrúnni. Á þeim tíma var ekki greint frá um hvað málið snerist.
Að sögn Andersen snerist málið um liðsmann ASMLA-hópsins, hreyfingar sem berst fyrir sjálfstæði Ahwaz-héraðs í suðvesturhluta Írans, sem lögregla taldi vera í hættu.
Anders Samuelsen, utanríkisráðherra Danmerkur, sagði í gær að brugðist yrði við vegna málsins.
Funduðu í Ósló
Guðlaugur Þór tók svo í dag þátt í fundi utanríkisráðherra Norðurlandanna á fundi Norðurlandaráðs í Ósló. Á fundinum gerði utanríkisráðherra Danmerkur grein fyrir málinu.
„Norðurlöndin sýna dönskum yfirvöldum fulla samstöðu vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar, enda tilræðið árás á norrænt samfélag og þau gildi sem það stendur fyrir,“ er haft eftir Guðlaugur Þór í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.
Ráðherrarnir samþykktu sameiginlega yfirlýsingu um málið.
Standa með Dönum í deilunni vegna tilræðis írönsku leyniþjónustunnar

Tengdar fréttir

Íranir hugðu á árás á danskri jörð
Lögregla í Danmörku telur að útsendarar írönsku leyniþjónustunnar hafi haft í hyggju að framkvæma árás gegn fólki í Danmörku.