Enski boltinn

Þyrla eiganda Leicester brotlenti fyrir utan leikvang liðsins

Anton Ingi Leifsson og Atli Ísleifsson skrifar
Myndin er frá því fyrr á leiktíðinni.
Myndin er frá því fyrr á leiktíðinni. vísir/getty
Þyrla eiganda Leicester, Vichai Srivaddhanaprabha, brotlenti fyrir utan leikvang liðsins, King Power Stadium, eftir leik Leicester City gegn West Ham United í kvöld.

Ekki liggur fyrir hve margir hafi verið um borð í þyrlunni eða hvort Srivaddhanaprabha hafi verið einn þeirra. Af myndböndum að dæma var viðbúnaðarstig hátt í kringum leikvanginn en mikill eldur blossaði upp þegar þyrlan skall til jarðar.

Í frétt Guardian  segir að óstaðfestar fréttir hermi að Srivaddhanaprabha hafi verið um borð. Þetta segir sömuleiðis Ben Jacobs, blaðamaður ESPN, eftir að hafa rætt við fulltrúa fyrirtæksins King Power.

Sjónarvottar segjast hafa séð Kasper Schmeichel, markmann félagsins, hlaupa í átt að þyrlunni þegar slysið varð.

Leicester gerði 1-1 jafntefli við West Ham á heimavelli í kvöld.

Í yfirlýsingu frá lögreglunni í Leicester segir að verið sé að vinna úr atviki sem hafi komið upp rétt fyrir utan leikvanginn um klukkan 20:30 að staðartíma, um klukkustund eftir leikslok. Þyrlan á að hafa brotlent á bílastæðinu fyrir utan leikvanginn. 



Í frétt BBC  er haft eftir sjónarvottum að þyrlan hafi hrapað til jarðar „líkt og steinn“.



Srivaddhanaprabha ferðast með þyrlu til og frá leikjum Leicester en eftir þá leiki sem Leicester spilar á heimavelli fer Srivaddhanaprabha upp í þyrluna á miðjum leikvanginum. 

Sky Sports segir frá því að Aiyawatt Srivaddhanaprabha, varaformaður stjórnar og sonur Vichai, hafi ekki verið um borð í þyrlunni. Sömu sögu sé að segja af John Rudkin, yfirmanni knattspyrnumála hjá Leicester City.

Vichai Srivaddhanaprabha.EPA
Keypti félagið 2010

Srivaddhanaprabha er eigandi ferðafyrirtæksins King Power og keypti Leicester árið 2010 og gerðist í kjölfarið stjórnarformaður félagsins.

Leicester vann óvænt Englandsmeistaratitilinn tímabilið 2015-16 undir stjórn Ítalans Claudio Ranieri. Frakkinn Claude Puel er núverandi knattspyrnustjóri félagsins.

Fréttin hefur verið uppfærð.

Þyrla eiganda Leicester á miðjum King Power vellinum.Getty



Fleiri fréttir

Sjá meira


×