Innlent

Misskilningur olli því að allir rafbílatenglarnir eru ekki tengdir

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Framkvæmdastjóri Veitna segir misskilning hafa valdið því að ekki sé búið að tengja rafmagn í stóran hluta þeirra tengla fyrir rafbíla sem Reykjavíkurborg hefur sett upp. Hún segir að málið verði afgreitt á næstunni.

Aðeins er hægt að nota tólf af þeim 58 rafbílatenglum sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í miðborginni þar sem Veitur hafa ekki tengt rafmagn í þá. Skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá borginni sagði í fréttum Stöðvar 2 í gær að rafbílaeigendur væru orðnir verulega óþreyjufullir.

Inga Dóra Hrólfsdóttir framkvæmdastjóri Veitna segir að fyrirtækið ætli á næstunni að tengja allar tilbúna rafbílatengla sem borgin hefur sett upp.Vísir/Egill Aðalsteinsson
Inga Dóra Hrólfsdóttir Framkvæmdastjóri Veitna segir að tafir hafi orðið en málið verði afgreitt á næstunni. 

„Það er ljóst að það hefur orðið einhver misskilningur milli allra þeirra aðila sem eru með þessi mál. Það eru t.d. við, borgin, þeir sem setja upp stöðvarnar, rafverktaki, hönnuður og fleiri. En við ætlum að einhenda okkur í að tengja allt sem er tilbúið fyrir heimtaugar á næstunni,“ segir Inga Dóra. 

 Hún segir að dreifikerfið sé að fullu tilbúið fyrir rafbílavæðingu bílaflotans. 

„Við fylgjumst mjög vel með fjölgun rafbíla og erum alltaf að gera ráðstafanir í kerfunum. Við höfum þessa framtíðarsýn að leiðarljósi þar sem verið er að byggja ný hverfi eða í hverfum sem verið er að breyta. Við erum í raun ekki bara tilbúin heldur viljum hvetja til orkuskipta,“ segir Inga Dóra að lokum.    


Tengdar fréttir

Aðeins hægt að nota tólf af 58 rafbílatenglum

Aðeins er hægt að nota fimmtung af þeim rafbílatenglum sem Reykjavíkurborg hefur sett upp í miðborginni þar sem Veitur hafa ekki sett rafmagn í þá. Skrifstofustjóri umhverfisgæða hjá borginni segir að rafbílaeigendur séu orðnir verulega óþreyjufullir. Reykjavíkurborg kannar nú hvaða rekstrarform er ákjósanlegast fyrir hleðslustöðvar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×