Vinir Pjotrs Verzilov, rússnesks stjórnarandstæðings, sem grunur leikur á að eitrað hafi verið fyrir í síðustu viku segja að honum líði betur eftir að hann var fluttur á sjúkrahús í Berlín í gærkvöldi. Verzilov hefur misst sjón og getur hvorki talað né gengið eftir að hann veiktist skyndilega í síðustu viku.
Reuters-fréttastofan segir að Verzilov hafi veikst eftir að hann var viðstaddur dómsmál í Moskvu á þriðjudag. Hann hafi fengið flog í sjúkrabíl á leiðinni á sjúkrahús í borginni. Hann var fluttur með sérstöku sjúkraflugi til Berlínar í gærkvöldi.
Verzilov, sem rekur vefsíðu sem fylgist með mannréttindamálum í Rússlandi og hefur starfað með róttæka listahópnum Pussy Riot, er nú sagður við betri heilsu.
„Honum líður betur. Allt er í lagi. Læknarnir hér eru frábærir,“ sagði Veronika Nikulsjína úr Pussy Riot við Reuters við sjúkrahúsið í dag.
Eiginkona Verzilov hefur sagt að hún telji að eitrað hafi verið fyrir honum til að ógna honum eða myrða.