Það er uppselt á leik Íslands og Þýskalands í undankeppni HM 2019 á morgun, laugardag. Fyrir þá sem ekki komast á leikinn verður hægt að horfa á hann í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport, í opinni dagskrá. Útsendinguna verður einnig hægt að nálgast á Vísi.
Leikurinn hefst klukkan 14.55 en upphitun hefst klukkan 14.00 og verður í umsjón Tómasar Þórs Þórðarsonar. Sérfræðingar hans á leiknum verða landsliðskonurnar margreyndu Margrét Lára Viðarsdóttir og Dagný Brynjarsdóttir.
Helena Ólafsdóttir og Ásthildur Helgadóttir, fyrrum landsliðsfyrirliði, verða einnig í útsendingunni en leiknum sjálfum verður lýst af Guðmundi Benediktssyni.
Leikurinn sjálfur er sá stærsti í sögu íslenska landsliðsins. Sigri Ísland mun liðið tryggja sér sæti í úrslitakeppni HM í fyrsta sinn í sögunni. Andstæðingurinn er eitt besta lið heims, margfaldir heims- og Evrópumeistarar Þýskalands sem hafa verið í sárum eftir óvænt 3-2 tap fyrir Íslandi ytra síðastliðið haust.
Þetta er næstsíðasti leikur Íslands í riðlinum en stelpurnar mæta einnig Tékkum á Laugardalsvelli á þriðjudag. Sá leikur hefst klukkan 15.00 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.
