Borgin tilkynnti í maí að um 1.600 börn fædd 2016 og fyrstu mánuði 2017 yrðu tekin inn í leikskólana í haust. Það myndi hins vegar ráðast af því hvernig gengi að ráða í lausar stöður á leikskólum hvenær hægt yrði að hefja aðlögun barnanna.
„Við fylgjumst mjög náið með stöðunni og erum í beinu sambandi við leikskólastjórnendur til að geta séð stöðuna nákvæmlega,“ segir Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs.
Hann segir heildarstöðuna ekki munu liggja fyrir fyrr en rætt hafi verið við stjórnendur allra leikskólanna. Tölurnar verði lagðar fyrir á fundi skóla- og frístundaráðs og gerðar opinberar í kjölfarið.
„Það er samt gott hljóð í þeim sem við höfum þegar talað við og fjölmargir hafa tryggt grunnmönnun. Við styðjum við þá skóla sem enn vantar starfsfólk til að tryggja mönnun þeirra sem allra fyrst.“
Katrín Atladóttir, fulltrúi Sjálfstæðisflokksins í skóla- og frístundaráði, segist sjálf hafa kallað eftir svörum um stöðuna hjá leikskólunum en ekki fengið. Hún segir að staðan muni eitthvað skýrast á undirbúningsfundi sviðsins í næstu viku.

Einn þeirra leikskóla sem sér fram á að þurfa að bíða með að taka ný börn inn í aðlögun er Steinahlíð. Bergsteinn Þór Jónsson leikskólastjóri hefur skrifað bréf til foreldra þar sem þetta er tilkynnt.
„Hjá okkur vantar ekki svo marga starfsmenn en það vantar deildarstjóra á yngstu deildina sem er lykilstaða,“ segir Bergsteinn.“
Hann segir að foreldrar ellefu barna hafi fengið bréf þar sem fram komi að ekki verði hægt að taka þau inn að svo stöddu. „Þetta er engin óskastaða fyrir okkur en þetta snýst um öryggi barnanna.“
Að sögn Bergsteins snýr hluti vandans að því að grunnskólinn sé að taka starfsfólk frá leikskólunum. „Á mínum fyrri vinnustað fóru á einu ári fimm fagaðilar yfir í kennslu í grunnskólum. Þetta er mikil blóðtaka fyrir leikskólana.“